Vegvísar og viska í boði fyrir þig til að bæta þig og þitt líf úr rannsóknum í jákvæðri sálfræði

Við erum svo dásamlega mannleg að það dugar okkur alls ekki að heyra eitthvað bara einu sinni. Við þurfum á reglulegri endurtekningu að halda til að einhver þekking, viska eða boðskapur síist inn í okkur og við náum að nýta gæðin sem í fræðunum felast fyrir okkur sjálf. Til að bæta okkur sem manneskjur, líf okkar, hugsun, hegðun og líðan.

Sem dæmi má nefna að við endurtókum eitt sinn aftur og aftur margföldunartöfluna þar til hún varð okkur tiltæk í huga og sá siður kirkjunnar að messa ávallt á sunnudögum snýst að einhverju leiti um að yfirfara aftur og aftur boðskapinn þar til hann verður þeim sem kjósa að sækja kirkju svo tiltækur og tamur að hann verður hluti af sannfæringu og lífsstíl. Á svipaðan hátt er snjallt fyrir þá sem það kjósa að nýta sér þekkingu og visku úr fræðasamfélaginu, úr sálfræði, heimspeki, félagsvísindum, mannfræði og læknisfræði svo eitthvað sé nefnt til að bæta líf sitt. Í nútíma þjóðfélagi er slík þekking bæði meiri og nær okkur en nokkru sinni og við hæfari en eitt sinn var að tileinka okkur hana með margskonar tækni á ýmsum tungumálum.

Gagnreynd þekking sem byggir á rannsóknum á lífi og líðan fólks er hornsteinn að því að tileinka sér skynsamlegan, hollan, gagnlegan, gefandi og skemmtilegan lífsstíl. Lífsviðhorf sem skilar okkur viðhorfi, getu og krafti til að verða í sífellu betri manneskjur, geta reynst öðru fólki vel og látið gott af okkur leiða á okkar hátt hvert á okkar sviði. Við erum öll mikilvæg. Við getum öll látið muna um okkur. Einmitt þess vegna skiptir máli að við tileinkum okkur ævina á enda gagnlega þekkingu og visku svo okkur sé unnt að beina okkur, okkar getu og verkum í sem allra vísasta og skynsamlegasta átt svo gagn sé að. Því fleiri sem láta gott af sér leiða í samfélagi mann því meiri líkur eru á að okkur takist að draga úr voðaverkum og hörmungum og vera hvort öðru og jörðinni góð á heimsvísu.

Nýtum okkur þekkingu fræðasamfélagsins aftur og aftur til að bæta okkur, líf okkar og líðan. Til dæmis með því að lesa, hlusta eða horfa á fræðimenn fjalla um það sem rannsóknir sýna að hjálpar fólki í raun að bæta líf sitt og líðan. Má þar til dæmis nefna viskubrunn jákvæðrar sálfræði. Með endurtekinni þekkingarleit og yfirferð öðlumst við smátt og smátt visku, færni og getu til að ástunda heilsusamlegan, styðjandi, skemmtilegan og hjálplegan lífsstíl og í framhaldi af því eflumst við og aukum möguleika okkar og getu til að leggja öðrum lið. Er það ekki alveg bráð snjallt!

Í dag náði skynsamleg og skemmtileg grein eftir Hans Henrik Knoop fræðimann í jákvæðri sálfræði til mín. Vilt þú líka njóta hennar þér til gagns og gamans?
Hann skrifar meðal annar: Tænk over følgende: Hvad lever du for? Hvilke værdier har du? Hvilke aktiviteter, synes du, gør livet værd at leve? Børn, arbejde, hobbyer, mennesker, venner, bestemte måder at agere på, at hjælpe nogen med noget, at løbe en tur? Gør mere af det, hvis du kan. Prioriter det under alle omstændigheder.

http://politiken.dk/forbrugogliv/sundhedogmotion/ECE3305757/ekspert-i-positiv-psykologi-saadan-faar-du-det-bedre-hvis-du--har-det-svaert/


Sumarlífið sæla eða hvað?

Sumarið er tími sælu, ævintýra og upplifana, eða er það ekki? Framundan er hin víðfræga verslunarmannahelgi sem er, samkvæmt orðræðunni í fjölmiðlum, einstakt tækifæri til hópsamveru sem allir taka þátt í. Umfjöllunin er slík að þeir sem ekki ætla á einhverskonar þjóðhátíð, bæjarhátíð eða viðburð upplifa auðveldlega að þeir séu hornreka í samfélaginu. Að þeir séu ekki að njóta lífsins eins og annað fólk, að þeir hafi ekki burði til, eða nái ekki, að skapa sér tækifæri til að taka þátt í því sem er eftirsóknarvert og mikilvægt og séu bara hálf misheppnaðir. Margir upplifað þessa tilfinningu aftur og aftur á sumrin, tilfinninguna, allir eru að gera það gott nema ég.

Já, sumarið er en yndislegt en sannarlega erfiður tími hjá mörgum. Dagskipulagið sem ríkir hjá einstaklingum, fjölskyldum og í samfélaginu frá miðjum ágúst og fram í júní riðlast. Breytingarnar ná ekki aðeins til skóla og vinnu heldur líka samskipta fólks, félags og menningarlífs, neyslu, fjárhags og hversdagslegra viðburða. Sumarlífið reynir á stöðu á vinnumarkaði. Hefur þú vinnu, er hún tímabundin eða föst, er vinnuálagið skaplegt eða einmitt alltof mikið á sumrin, hefur þú svigrúm og getu til að taka sumarfrí? Sumarlífið reynir líka á efnahagslega stöðu. Áttu peninga til að fara dag eftir dag í sund, fara til Spánar eða Danmerkur, borga þig inn á Bræðsluna eða Þjóðhátíð? Sumarlífið reynir á fjölskyldustöðu og fjölskyldutengsl, aðrar félagslegar tengingar og samskiptanet. Er einhver í tengslanetinu þínu sem vill fara með þér í útilegu, gönguferð eða á Sumar á Selfossi? Hefur þú kraft, kjark og löngun til að fara einn? Tilheyrir þú hópi, áttu maka, börn eða foreldra sem þú getur eða vilt njóta lífsins með? Gengur það vel eða er það flókið og snúið?

Við skulum ekki taka því sem sjálfgefnu að allir eigi einhvern að. Að allir hafi félagsskap sem heldur gegnum sumardagana. Sumarið er einmitt tíminn þegar fólk upplifir missi, einsemd, afskiptaleysi og tengslaleysi sárar en ella. Þegar tómleiki, depurð og vansæld með eigin stöðu í lífinu sækir þungt að. Ef þú finnur sterkt fyrir einmannaleika, tapi og leiða skaltu muna að þú ert ekki einn í þeirri stöðu. Það eru ekki allir hinir í stuði að undirbúa einhverskonar verslunarmannahelgarhátíð og þessir dagar líða eins og aðrir. Hlúðu að sjálfum þér og njóttu þess smáa góða sem er í hverjum degi lífsins.

Þeir sem eru einmitt núna í góðu stuði og virkilega að njóta ævintýra sumarsins, gætu aftur á móti auðveldlega auðgað eigin líf og annarra með því að bjóða einhverjum sérstaklega að vera með. Hluti af því að vera góð manneskja er að muna eftir öðru fólki, bæði í sorg og sælu. Vera til staðar og gefa kost á sér ekki bara á erfiðu stundunum heldur líka þeim fjörugu og góðu.

Bjóddu einhverjum að njóta þess að upplifa og vera með þér núna!


Ert þú vaxandi?

13015237_859444654163837_6638495928579634696_nEinu sinni var allt nýtt í lífi okkar. Við lærðum að borða, tala, ganga og svo að klæða okkur, lesa og skrifa. Síðan lærðum við mörg að hjóla, keyra bíl og elda mat svo eitthvað sé nefnt.

Vaxandi einstaklingur er alltaf að læra og þroskast, alla ævina út í gegn.

Bæta við sig einhverju nýju, auka færni sína, þekkingu og visku. Það að læra og bæta sig eflir okkur á allan hátt, viðheldur sjálfsmynd okkar, virkni og getu. Höfum hugfast að það er algjörlega fánýt og úrelt hugmynd að dæma sjálfan sig eða afsaka með orðunum, ég er bara svona. Við erum ekki dæmd til að vera áfram einhverskonar, við erum breytileg. Ekki leyfa þér að festast í of litlum lífshring, staðna í vananum, dæma þig til að lifa takmörkuðu einhæfu lífi. Vera bundinn við að vera áfram sá sem þú varst í gær eða fyrra.

Gefðu þér gjöf lífsins, að vera virkur og vaxandi maður.

Gerðu það með því að viðhalda opnum huga, kjarki og krafti til að njóta bæði þess sem er nú og þess nýja. Með því að velja þér skapandi viðhorf lifandi huga sem er tilbúin til að verða, prófa, skoða, læra, taka eftir og skynja ný tækifæri. Við erum síbreytilegar lífverur og eigum öll möguleika á að breytast og bæta okkur með því að tileinka okkur eitthvað nýtt. Verða öðruvísi í sumar en við vorum síðasta sumar. Hugsa öðruvísi, nota önnur orð, hegða okkur á annan hátt, stýra tíma okkar á annan hátt og njóta lífsins á nýjan veg. Við getum tileinkað okkur nýtt á ótrúlega mörgum sviðum lífsins, alveg frá því smæsta til þess stærsta. Vani er þægilegur að vissu marki en hann er líka stöðnun. Ef við erum stöðnuð þá valda óhjákvæmilegar breytingar sem tímans hjól færir okkur, ótta og öryggisleysi. Af því að við höfum enga æfingu í því nýja og trúum ekki á eigin getu í breytingum. Þá er betra að vera lifandi, síbreytilegur einstaklingur í vexti og vita að það nýja er tækifæri. Best er að hafa oft upplifað að maður sjálfur ráði við nýjar stöður, leiði og upplifanir og virkilega njóti þroskaleiðarinnar.

Tileinkum okkur vaxtarsjálf og sönnum fyrir okkur að við getum höndlað það nýja og notið þess, þá vitum við að við erum fleyg og til í áskoranir og ævintýri lífsins.

Gætum þess allar stundir, já á hverjum degi, í hverri viku og hverjum mánuði að efla okkur og styrkja með því að gera eitthvað nýtt. Læra eitthvað, æfa okkur í einhverju, prófa eitthvað! Það getur verið krefjandi en einmitt þess vegna er það eflandi og skemmtilegt.

Við getum öll meira en við ætlum - þú líka!


30 gjafir - nýta og njóta

Nú eru páskar að baki og senn heilsar apríl. Apríl, mánuður þrjátíu daga. Pakki tímans með þrjátíu gjöfum til mín og þín, í formi lífsins í 24 stundir. Ef við njótum þess láns að lifa. Hvernig ætlum við, ég og þú að nýta þessa daga og njóta þeirra?

Auðvitað er alveg ljóst að við ráðum ekki nema að hluta til vegferð okkar gegnum tímann hér á þessari jörð. Samt getur verið skemmtilegt, snjallt og ábyrgt að spyrja sig við og við hvert leiðin liggur og hvernig hennar er notið. Væntanlega þurfum við öll að sinna einhverjum verkefnum sem við höfum tekist á hendur en samt er alltaf svigrúm. Í raun eru möguleikar okkar til að hafa áhrif miklu meiri en við sjálf áttum okkur á.

Við höfum mikið vald í núinu um okkar eigið hugarfar og viðhorf og val um hvernig verkefnum daglegs lífs er sinnt.

Við höfum líka val um hvernig orð við notum í samræðum við annað fólk og minnumst þess að orðin okkar heyrum við líka sjálf. Þannig að þau hafa áhrif, ekki aðeins á aðra heldur líka okkur. Þess vegna ættum við ávallt að velja þau af virðingu, fegurð og góðvild.

Á hverri stundu veljum við líka, oft ómeðvitað, hvernig við beitum athygli okkar og orku og það mótar upplifun okkar, líðan og hamingju.

Við veljum hvernig við hlúum að og virðum heilsu okkar, líkamlega, andlega og félagslega, til dæmis með því hvernig við kjósum að næra okkur, hreyfa, hvíla og stunda samskipti við fólk. Við erum hluti af samfélaginu og höfum öll áhrif í okkar hring sem lifa áfram í samskiptum þeirra sem við sjálf umgöngumst við annað fólk.

Við getum valið hvaða orðræðu og viðhorfum í þjóðfélaginu við leggjum lið.

Pælum aðeins í því hvernig við viljum nýta og njóta apríl mánaðar. Hvaða lóð viltu leggja á þínar vogarskálar í þessa 30 daga og hvernig áhrif viltu hafa? Síðustu daga hef ég spurt nokkra samferðamenn mín að því hvernig þeir hyggjast nýta og njóta næsta mánaðar og til dæmis fengið þessi svör: Ég ætla að bæta heilsuna. Ég ætla að klára öll verkefnin svo ég geti lokið háskólanáminu. Ég ætla að byrja að rækta allar mögulegar gerðir af kryddjurtum. Ég ætla að hlusta á færri fréttir og meiri tónlist. Ég ætla að brosa meira og vera enn jákvæðari í samskiptum við fjölskyldu mína.

Hver dagur er gjöf, tækifæri lífsins. Veltu því fyrir þér hvernig þú vilt móta eigin hugsun, hegðun, framkomu og lífsstíl. Hvernig þú vilt vera í samskiptum við aðra og sjálfan þig, nýta og njóta tímans í apríl.


Forvarnir gegn sálrænum sárum

Við og við stíga einstaklingar fram og segja frá því að þeir hafi orðið sterkari eftir erfiðleika. Að þeir séu nú reynslunni ríkari og öflugri eftir að hafa gengið í gegnum einhverskonar neikvæða upplifun, álag, áföll eða átök enda er sársauki sannarlega hluti af lífsgöngunni.

Því er óendanlega dýrmætt í hvert sinn sem einstaklingur nær að blómstra á ný eftir sársaukafulla upplifun. Nær að finna aftur öryggi, ró, sælu, gleði, bjartsýni og styrk í eigin sál eftir nagandi áhyggjur, ótta, reiði, skömm, fárviðri skerandi örvæntingar eða dýpsta pytt lamandi vonleysis og vanmáttarkenndar. Mannsandinn er magnaður og nær sem betur fer oft að rísa eins og fuglinn Fönix úr brunarústum vanrækslu, hunsunar, átaka, árása, áfalla, eineltis eða annarskonar andlegs álags eða ofbeldis. Það þýðir hinsvegar alls ekki að slíkar hörmungar séu ásættanlegar, ákjósanlegar eða til góðs.

Forvarnir

Horfumst í augu við að það er ekki til góðs að vera í óhollum, óheilbrigðum, mengandi, niðurníðandi, neikvæðum, meiðandi aðstæðum. Hvorki í sínu nánasta sambandi, á eigin heimili, á vinnustað eða í hópi. Sálræn sár eru sársaukafull og alvarleg og algjörlega nauðsynlegt að við höfum það viðhorf að okkur beri að víkja okkur undan þeim, verjast þeim og nýta forvarnir til að koma í veg fyrir þau. Alveg eins og við verjumst og víkjum okkur undan líkamlegum sárum þegar við notum pottaleppa til að taka á heitri plötu, öryggisbelti eða mannbrodda.

Brot eru ekki til bóta

Sársauki í sál er hluti af eðlilegu lífi og hann getur verið lærdómur og reynsla en það er ekki þar með sagt að það sé ásættanlegt, heilsusamlegt eða til bóta að dvelja í meiðandi aðstæðum, samskiptum eða samböndum. Þar sem brjótandi hegðun eins og til dæmis einelti, niðurlæging, fýlustjórnun eða annarskonar andlegt ofbeldi viðgengst. Betra er að verjast sálrænum sárum, leita sér hjálpar og komast í skjól. Þess vegna er mikilvægt að meta eigin stöðu og átta sig á að viðvarandi neikvæðar sársaukafullar aðstæður eru ekki neinum til góðs.

Tökum þátt í forvörnum gegn sálrænum sárum

Það er líka dýrmætt að við lítum til með fólkinu okkar og vekjum það til umhugsunar um stöðuna ef okkur finnst það búa við meiðandi aðstæður á einhverju sviði. Andlegt ofbeldi á aldrei að líðast. Sálræn sár eru alvarleg, ekki horfa í hina áttina, taktu afstöðu. Öxlum alltaf sérstaklega ábyrgð og stígum fram ef börn eiga í hlut. Hvort sem grunur leikur á einelti, vanrækslu, ofbeldi eða öðrum ólíðandi verknaði eða aðstæðum. Ef við líðum ekki niðurbrjótandi, óheilbrigða, meiðandi hegðum heldur snúumst gegn henni í verki eru það forvarnir gegn sálrænum sárum. Við getum öll verið á vaktinn, hafnað meiðandi hegðun og lagt góðmennskunni lið.


Breyttu þér

Það er spennandi og skemmtilegt að hafa þá lífssýn að vegferð okkar hér á þessari jörð sé til þess ætluð að við BÆTUM OKKUR ævina á enda. Að tilgangur lífsgöngunnar sé að þroskast og eflast og verða sífellt betri manneskja. Þetta snýst ekki um að við ætlum að breyta okkur fyrir aðra heldur að við SJÁLF KJÓSUM að þróast og breytast til betri vegar sem sjálfkrafa verður svo til góðs fyrir aðra. Sérstaklega þá sem við elskum mest, okkar nánasta fólk, en líka þá sem ganga með okkur gegnum hversdaginn.

Hvernig vilt þú breyta þér núna fram að páskum?

Dettur þér fyrst í hug að þú viljir verða í betra formi eða með flottara hár? Þannig hugmyndir um breytingar eru uppi á pallborði umræðunnar í samfélaginu öllum stundum. Núna ætlum við ekki að pæla í þeim. Við ætlum að skoða okkur sem einstaklinga, persónuleika á leiksviði lífsins. Hvernig persóna ert þú? Hvernig líður þér? Hvernig áhrif hefur þú á líðan annarra og í samfélaginu?

Langar þig að halda áfram að vera nákvæmlega eins og þú ert eða má hugsanlega breyta einhverju til betri vegar?

Það er virkilega skemmtileg og heillandi vegferð að breytast og batna. Á hverju viltu byrja? Er eitthvað varðandi þína eigin HUGSUN, HEGÐUN, VIÐHORF og LÍFSSTÍL sem mætti bæta? Eitthvað sem birtist í fasi þínu, framkomu, orðum eða verkum og hefur áhrif á þig, líðan þína, líf og lífsgæði, annað fólk, umhverfið og tilveruna almennt.

Hér er ALLT undir.

Hvernig við njótum TÍMANS og nýtum hann einmitt í dag. Hvernig við nýtum okkar eigin ATHYGLI, hvert beinum við henni, hvað grípur augað, hugann, nær til okkar tilfinningalega? Hvernig beitum við ORKUNNI okkar, hvað veljum við að framkvæma og hverju er sleppt. Hvaða STYRKLEIKA nýtum við og hverja ekki? Hvernig viðhorf temjum við okkur á hinum fjölbreyttu sviðum lífsins, hvernig siði, VENJUR og hegðun? Hvernig FORGANGSRÖÐUM við, hvað setjum við fremst á gátlistann og hverju er sífellt slegið á frest? Hvernig fas temjum við okkur, VIÐMÓT og framkomu. Hvort virðum við og ræktum EIGINLEIKA eins og skipulag og marksækni eða flæði, núvitund, innsæi og listfengi? Hvernig veljum við að KOMA FRAM við okkur sjálf og aðra? Hvernig talar þú til þín, rífur þú þig niður eða hvetur og hlúir að þér? Ætlar þú þér af eða gengur sífellt fram af þér? Hvernig komum við fram við þá sem við elskum mest, ástvinina sem næst standa? Hvernig veljum við að vera á vinnustað, í hópi og almennt á velli samfélagsins? Erum við hvetjandi, bjartur og hlýr sólargeisli eða hryssingslegt haglél, leiðinda rok eða villandi þoka? Einkennist ORÐRÆÐA okkar af sleggju dómum svart hvíts hugsunarháttar, þröngri rörsýn eða niðurlægjandi rykslætti? Erum við föst í ákveðnu fari, upptekin af að tala og hugsa um sömu málefnin og áhugasviðin út í eitt eða einkennist hugsun okkar og framkoma af fjölbreytileika og víðsýni? Styður hegðun okkar og hugsun við góða HEILSU sálræna, félagslega og líkamlega?

Já, það er að mörgu að hyggja en við getum öll nýtt vikurnar fram að páskum til að bæta eitthvað í eigin fari. Hverju vilt þú breyta? Það er snjallt að taka viku í að pæla í þessu og skrá niður þau atriði sem þú velur að vinna með, til dæmis þrjú til níu atriði. Þá er stefnan tekin. Svo er galdurinn að virða hana á hverjum degi og vertu viss, með vikunum mun árangur nást, þú breytist og batnar.

Þegar þú bætir sjálfan þig verður þú og lífið allt meira heillandi, byrjaðu strax!


Settu gleðistundir á dagskrá

Einmitt núna í janúar þegar allt árið er framundan vil ég hvetja þig til að auka markvisst og skipulega ánægju, gleði, sælu og hamingju í þínu eigin lífi. Vittu til, ef þú gerir það af skynsemi og góðmennsku mun það ekki aðeins bæta þitt eigið líf heldur líka þeirra sem þú umgengst og verða þannig til góðs fyrir þig, fólkið þitt, vini, kunningja og samfélagið allt.

Já, gleði þín, jákvæðni, sæla og hamingja skiptir máli bæði fyrir þig og alla hina.

Ánægjulegar athafnir eru alveg NAUÐSYNLEGAR fyrir geðheilsuna og til að létta og bæta lífið. Það er snjallt að gera SKRÁ fyrir athafnir og upplifanir sem þér finnast gefandi og skemmtilegar taka svo frá tíma fyrir þær og virkilega setja þær á dagskrá! Það færir okkur hamingju og betri andlega, líkamlega og félagslega heilsu að eiga smærri og stærri ánægjulegar gefandi stundir á hverjum degi, í hverri viku, hverjum mánuði og á hverju ári, alveg satt! Þú veist ekki hve mörg tækifæri þú hefur, settu ánægjulegar og gefandi upplifanir og athafnir á dagskrána þína NÚNA fyrir árið 2016!

Þetta er alveg dauðans alvara, margar rannsóknir hafa sýnt að ánægjulegar og gefandi athafnir eru virkilega mikilvægar og að þær hafa forvarnargildi gegn leiða, depurð, framtaksleysi, vonleysi og þunglyndiseinkennum. Ánægjulegar og gefandi athafnir og upplifanir byggja þig upp og gefa þér orku, framtak, gleði, bjartsýni, jákvæðni og sælu í sál. Slítandi og erfiðar athafnir taka af þér toll og ef þær einar fylla dagskrána þína þreyta þær þig og draga niður. Það er frábært að ákveða í upphafi árs að hlúa að líkamlegri heilsu með heilsusamlegri hreyfingu, útivist og hollri næringu en við þurfum líka, og ekki síður, að rækta og hlúa að GEÐHEILSUNNI.

Þess vegna hvet ég þig til að gera, núna í JANÚAR, lista yfir ákjósanleg viðfangsefni, athafnir, upplifanir sem þú veist að veita þér ánægju, gleði og hlýju í sál. Best er að á listanum séu bæði atriði sem þú getur gert heima og að heiman, einn og með öðrum, sem sagt ákveðin fjölbreytni. Veldu það sem þú veist að lyftir lund þinni og miðaðu við sjálfan þig eins og þú ert núna einmitt í dag á því æviskeiði sem þú ert á núna. Svo hvet ég þig til að sýna þér og þínum þá virðingu að setja þessar stundir á dagskrá því að það mun bæta líf þitt og þeirra sem þú elskar mest!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband